27.05.2011 08:38
Auknar aflaheimildir í karfa

Sjávarútvegsráðherra gaf í liðinni viku út reglugerð um aukningu á heimildum til veiða á gullkarfa og djúpkarfa á yfirstandandi fiskveiðiári úr 40 þúsund lestum í 50 þúsund. Aukningin nú er vegna aukinnar útbreiðslu þessara tegunda í meðafla en skipstjórar hafa bent á að karfi sem meðafli sé mun meiri en mörg undanfarin ár. Þannig verður karfans nú vart sem meðafla á svæðum þar sem hans hefur ekki orðið vart áður. Að mati Hafrannsóknastofnunar var aukning um 5-10 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári talin hafa takmörkuð áhrif á framvindu stofnstærðar. Í framhaldi af þessu ákvað ráðuneytið að auka aflamark í djúpkarfa úr 10.000 tonnum í 12.500 tonn og gullkarfa úr 30.000 í 37.500 tonn.
