Skútan sem fórst var svipuð og sú sem sést hér á myndinni. Mynd: Tekið af vef rannsóknarnefndar sjóslysa.
"Ég er búinn að vera fimmtíu ár á sjó eða meira og aldrei fengið flak upp," sagði Jón Sæmundsson skipstjóri á Oddgeiri EA 600 í samtali við blaðamann DV sem fékk þriggja mastra seglskútu í trollið fyrr í dag. Samkvæmt Jóni er að um að ræða skútu sem fórst 25 sjómílum suðvestur af Malarrifi á Snæfellsnesi árið 2004. Tveir menn voru um borð og náði þyrla Landhelgisgæslunnar til þeirra. Einungis annar þeirra lifði af en hann var sautján ára gamall en 49 ára föðurbróðir hans var úrskurðaður látinn um borð í þyrlunni. Þeir höfðu verið í einn og hálfan tíma í sjónum.
"Ég held að meirihlutinn af henni hafi komið upp, en svo fór það niður aftur. Þetta var óhemjuvesen og það fóru margir klukkutímar í að losna við þetta. Seinni hluti dagsins fór allur í þetta. Svo var trollið allt í tætlum," sagði Jón skipstjóri sem telur að það sé algjör undantekning að fá skútur á borð við þessa í trollið.
Jón segir að ýmsir persónulegir munir hafi komið í trollið með skútunni sem skipverjarnir tóku og ætla að afhenda lögreglu þegar þeir koma til hafnar í Grindavík á morgun eða á föstudag. Hann segir ýmis gögn á borð við myndir og annað sýna svo ekki verði um villst að um er að ræða kanadísku skútuna sem fórst fyrir sjö árum síðan.

