30.04.2011 17:35

Hrafnreyðin tekin fyrir veiðar á hvalskoðunarsvæði

visir.is:

Meðfylgjandi er mynd af hvalveiðibátnum Hrafnreyið og hvalaskoðunarbátnum Rósinni en hún var tekin í fyrrasumar á Faxaflóanum.

Meðfylgjandi er mynd af hvalveiðibátnum Hrafnreyið og hvalaskoðunarbátnum Rósinni en hún var tekin í fyrrasumar á Faxaflóanum.

Landhelgisgæslan hafði afskipti af hvalveiðibáti sem var á veiðum innan ákveðinnar línu sem afmarkar svæði fyrir hvalaskoðun en það var sjávarútvegsráðuneytið sem setti reglugerð um svæðið fyrir um tveimur árum síðan.

Í reglugerðinni sagði orðrétt:

"Afmörkuð verða svæði til hvalaskoðunar, þar sem með öllu verður óheimilt að stunda hvalveiðar. Þetta er gert á grundvelli laga og til þess að koma í veg fyrir árekstra milli þessara tveggja atvinnugreina."

Þegar haft var samband við Landhelgisgæslunnar fengust þau svör að tilkynningu væri að vænta um málið en varðstjóri vildi ekkert gefa upp um atvikið að öðru leytinu til.

Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar, sagði í viðtali við Vísi að samkvæmt AIS staðsetningarkerfinu, sem er í flest öllum bátum í dag, mætti sjá að hvalveiðibáturinn Hrafnreyði var búinn að vera á sama svæðinu frá um átta leytið í morgun. Það svæði er innan umræddrar línu sem sjávarútvegsráðuneytið dró fyrir tveimur árum síðan.

"Við sáum hann á svæðinu. Við héldum reyndar fyrst að þeir væru rétt fyrir utan línuna," segir Rannveig en hvalveiðibátarnir eru sem þyrnir í augum hvalaskoðunariðnarins af augljósum ástæðum.

"Þetta getur ekki farið saman, það er að segja að skjóta sömu dýr og við erum að skoða," segir Rannveig og fullyrðir að þróunin hafi verið þannig síðustu árin að færri og færri dýr sjáist í hverri ferð og eru þau erfiðari að nálgast en áður.

Hafi hvalveiðibáturinn verið fyrir innan umræddrar línu þá verður það kært til sýslumannsins í Reykjavík.