25.04.2011 09:00

Fjaðrafok vegna Týs

All mikið fjaðrafok hefur verið á ýmsum vefsíðum vegna þeirrar merkingar sem komnar eru á varðskipið Tý, sem er sem kunnugt er að fara í útleigu.

Finnst mörgum það vera skömm að í 1. lagi að leigja skipið og í 2. lagi að merkja það Evrópusambandsfánanum og öðru tilheyrandi.

Ég ætla aðeins að leggja mína skoðun fram í þessu máli.

1. Auðvitað er það þjóðarskömm að þurfa að leigja skipið, því þörf er á því í íslensku lögsögunni. En á sama tíma og Landhelgisgæslan er svellt, er ausið fjármunum í Fiskistofu. Væri ekki nær að leggja Fiskistofu niður í núverandi mynd, t.d. með því að láta Landhelgisgæsluna sinna þeirra hlutverki og þar með myndu fjármunir þeir sem Fiskistofa fær í dag renna til Landhelgisgæslunnar?

2. Þetta með merkinguna er svona eins og stormur í vatnsglasi. Því ef flugvélar, bílar, húsnæði, skip eða hvað annað er leigt, er það oftast málað í litum leigjandans og því getum við í raun ekkert sagt þó svo að skipið sé merkt með þessum hætti, fyrst við vorum á annað borð að leigja það.


     1421. Týr, með Evrópusambandsmerkinguna, í Reykjavíkurhöfn í gærdag © mynd Emil Páll, 24. apríl 2011