29.03.2011 14:19

Fiskistofa biðst afsökunar

mbl.is:

Fiskistofa hefur beðist afsökunar á því að stofnunin hafi sent frá sér rangar upplýsingar um landaðan afla frá Vestmannaeyjum.

"Í ljós hefur komið að gögn sem Fiskistofa staðfesti til fréttastofunnar voru röng. Sá hluti afla sem landað er í Vestmannaeyjum til endurvigtunar erlendis var ekki talinn til hluta afla sem landað er í Vestmannaeyjum við vinnslu upplýsinga fyrir fréttamann og skekkir það því niðurstöður um hlutfall afla sem fluttur er óunninn frá Vestmannaeyjum. Réttar upplýsingar eru þær að á fiskveiðiárinu 2008/2009 var landað 20.663 tonnum af kvótabundnum botnfisktegundum í Vestmannaeyjum, að auki var landað 19.510 tonnum af kvótabundnum botnfisktegundum og sá afli fluttur óunninn á erlenda markaði. Hlutfall þess afla sem fór óunninn á markaði erlendis fiskveiðiárið 2008/2009, af heildarafla lönduðum í Vestmannaeyjum var því rúm 48 %. Á sama hátt var landað 22.385 tonnum á fiskveiðiárinu 2009/2010 í Vestmannaeyjum, auk þess var landað 14.948 tonnum af kvótabundnum botnfisktegundum af afla sem fluttur var til endurvigtunar erlendis. Hlutfalls óunnins afla sem fluttur var til endurvigtunar erlendis 2009/2010 af heildarafla lönduðum í Vestmannaeyjum var því um 40%.

Upplýsingasvið Fiskistofu harmar að þessu leiðu mistök hafi átt sér stað og biður hlutaðeigandi aðila afsökunar. Leitast verður við að gera ráðstafanir sem tryggja aukna samþættingu gagna með það að markmiði að koma í veg fyrir að slík mistök við samlestur upplýsinga á milli upplýsingakerfa eigi sér stað," segir í yfirlýsingu Fiskistofu.