20.03.2011 18:27

Grásleppunetin stífluð af þorski

ruv.is

Óvenjumikill þorskur á grunnslóð fyrir Norðausturlandi veldur miklum vandræðum hjá grásleppukörlum í upphafi vertíðar. Dæmi eru um allt að tvö tonn af þorski í grásleppunetin á dag en margir hafa ekki veiðiheimildir fyrir svo miklum þorski.

Einar Magni Jónsson, grásleppukarl á Þórshöfn, segir sjómenn þar hafa verið að veiða grásleppu í Þistilfirði og þar hefur verið mikill þorskur - netin nánast stífluð af þorski. Þeir séu að fá frá 500 kílóum á dag upp í tvö tonn. Hann býr svo vel að vera með þorskkvóta á sínum bát en svo er ekki með alla. Leyfilegt er að landa einhverjum meðafla með grásleppunni og þá sem hlutfall af hrognaþyngd. Einar segir þær heimildir engan veginn duga þegar svo mikill þorskur er í netunum. Menn verði að leigja sér kvóta ef þeir ætli sér að landa fiski. Hann segist vona að fiskurinn hverfi þegar loðnan hverfi. Hann sé í loðnuæti núna og fari væntanlega þegar loðnan hverfur.