17.03.2011 19:00

Álfsfell selur bát og aflaheimildir

bb.is

Lúkas ÍS-71.
Lúkas ÍS-71.
Hallgrímur Kjartansson.
Hallgrímur Kjartansson.
Útgerðarfélagið Álfsfell ehf., á Ísafirði hefur gengið frá sölu á bátnum Lúkasi ÍS-71 ásamt öllum aflaheimildum. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri Álfsfells, segir að salan hafi verið gerð til að lækka skuldir félagsins við lánadrottna. "Þegar okkur var ljóst að samningar myndu ekki nást við bankann var ákveðið að leita að kaupanda hér á svæðinu," segir Hallgrímur. Kaupandi bátsins er nýtt félag, Sigurbjörg ehf., á Ísafirði, sem Ísfirðingurinn Gunnar Torfason er í forsvari fyrir. Félagið hyggst gera Lúkas áfram út frá Ísafirði og munu því bæði áhöfn og beitningarfólk halda vinnu sinni eftir söluna.

Samkvæmt skipaskrá eru rúm 550 þorskígildistonn skráð á Lúkas ÍS, rúm 450 tonn af þorski og tæplega 120 tonna ýsukvóti. Álfsfell var stofnað árið 2002 og hafði keypt til sín aflaheimildir á árunum fram að bankahruninu. Félagið hefur einnig verið með áframeldi á þorski í Skutulsfirði og notað til þess bátinn Bjargey ÍS. Hallgrímur segir Álfsfell ætla að reka áfram þorskeldið. "Áframeldið er nú í raun eini hluti Álfsfells sem enn er í rekstri. Rekstrarskilyrði eru hins vegar erfið í þessu, eins og í öðrum greinum nú um stundir, en vonandi tekst að tryggja reksturinn áfram," segir Hallgrímur.