08.03.2011 21:38

2,2 milljarðar hvíla á fimmtán tonna netabát

dv.is:

Frá Húsavík. Samkvæmt veðbandayfirliti eru áhvílandi 2,2 milljarðar á línu- og netabátnum Háey II.

Frá Húsavík. Samkvæmt veðbandayfirliti eru áhvílandi 2,2 milljarðar á línu- og netabátnum Háey II.

Samkvæmt veðbókavottorði hvíla um 2,2 milljarðar króna á línu og netabátnum Háey II. Báturinn er gerður út af GPG Fiskverkun á Húsavík, sem hefur glímt við mikila erfiðleika. Félagið sem er skráð fyrir bátnum heitir A300 ehf. Báturinn er skráður rétt tæplega 15 brúttótonn og er 10 metrar á lengd. Báturinn var smíðaður í Hafnarfirði árið 2007 af Samtak ehf. og er af gerðinni Víkingur 1200. Slíkur bátur kostar nýr nokkra tugi milljóna.

Samkvæmt þinglýsingarvottorði eru 10 veðbönd á bátnum. Fjögur þeirra voru gefin út í lok júlí 2007. Þar af eru 950 milljónir króna í íslenskum krónum og rúmar 4 milljónir evra. Veðbönd sem eru dagsett í 24. júlí 2008 upp á samtals 625 milljónir króna, eru einnig skráð á bátinn.

Gunnlaugur Hreinsson framkvæmdastjóri GPG Fiskverkunar vildi ekki veita DV upplýsingar um ástæðu skuldanna en nefndi krossveð í aðrar eignir fyrirtækisins svo sem kvóta. "Það vita það allir landsmenn að erlendar skulir hækkuðu um meira en helming við fall krónunnar. Skuldir í sjávarútvegi jafnvel tvöfölduðust og þrefölduðust hjá þeim sem fóru verst." Aðspurður um hvort skuldirnar séu viðráðanlegar, svarar hann: "Skuldirnar eru miklar, en tíminn vinnur eitthvað með mönnum."

Háey II hefur áður komist í fréttirnar síðasta haust þegar báturinn strandaði við Hólshöfða skammt innan við Raufarhöfn í september á síðasta ári.