08.03.2011 21:12
Stálprammi á reki út af Snæfellsnesi
Þyrla Landhelgisgæslunnar fann stálpramma á reki út af Dritvík á Snæfellsnesi í gær eftir ábendingu frá skipi sem þar átti leið um síðdegis í gær. Vísir.is greinir frá því að varðskip sé nú á leiðinni á staðinn til að taka prammann í tog. Ekki er vitað hvaðan pramminn kemur en sjófarendum stafar mikil hætta af honum þar sem hann marar nánast hálfur í kafi. Aðeins 30 til 50 sentímetrar eru ofan sjávarmáls þannig að pramminn sést illa í ratsjá. Fyrir nokkrum mánuðum sást til óþekkts pramma suður af Vestmannaeyjum og kann þetta að vera sá sami. Þykir mildi að skip eða bátar skuli ekki hafa siglt á hann á rekinu vestur fyrir landið.

