02.03.2011 19:01

Endurbygging Maríu Júlíu tefst

bb.is:

María Júlía.
María Júlía.


Endurbygging fyrstu björgunarskútu Vestfirðinga, Maríu Júlíu, hefur tafist vegna þess að fjárstreymi til Byggðasafns Vestfjarða hefur stöðvast tímabundið. Í bréfi frá Herði Sigtryggssyni, stálskipasmið á Þingeyri sem annast endurbæturnar, til bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ, er bent á að öll tæring og önnur hrörnun heldur áfram meðan ekki er gert við skipið. Einnig verði að athuga að skipið fer í rekstur þegar endurbyggingu er að fullu lokið og því geta tapast tekjur eftir því sem endurbyggingartíminn lengist. "Öllum má ljóst vera að tjón getur skapast af bið, þar sem endurbygging er komin vel af stað, frárif í framskipi er að mestu lokið, skýli hefur verið byggt yfir framskip til að þurrka það, en allir viðir þess voru mjög vatnssósa. Búið er að leggja mikla peninga í kaup á vinnu efni og raforku, skýlið gæti fokið, þannig gæti stór hluti þess fjár sem þegar er komið í verkið tapast. Síðast en ekki síst er verkið atvinnuskapandi á svæðinu," segir í bréfinu.

"Taka þarf höndum saman, þvert á pólitík og vinna að því að loforð samgönguráðherra um fjármagn í endurbygginguna, frá Ríkissjóði, verði efnt. Það loforð gaf hann þegar María Júlía BA 36 sknr. 151 var afhent núverandi eigendum árið 2005," segir jafnframt í bréfinu þar sem óskað er eftir stuðningi Ísafjarðarbæjar. Þá hefur verið hafist handa við koma á fót hollvinafélagi fyrir Maríu Júlíu en það mun leita eftir frjálsum fjárframlögum í endurbygginguna bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. "Nokkur bjartsýni ríkir um framlög því þetta sögufræga skip á sér marga velunnara," segir í bréfinu.

María Júlía á sér glæsta sögu sem björgunarskip Vestfirðinga, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. Skipið var síðan notað sem hafrannsóknarskip á milli stríða og björgunaraðgerða. Skipið er nátengt sögu Vestfirðinga. Það er 137 brúttósmálestir að stærð og 27,5 m að lengd, smíðað í Danmörku og kom hingað til lands snemma vors 1950. Auk þess að vera útbúið til björgunarstarfa var það hannað til að gegna fjölþættu hlutverki á sviði hafrannsókna og strandgæslu.