24.02.2011 18:00

Dýpkunartækin á leið úr landi

Eins og sagt var frá hér á síðunni fyrr í dag eru dýpkunartæki sem voru í Hafnarfirði á leið til Færeyja, með viðkomu í Njarðvík og óvíst hvort þau komi aftur til baka. Í Hafnarfirði voru þau í notkun, en nánar má lesa eftirfarandi á vef Hafnarfjarðarhafnar frá 22. feb. sl.


Undanfarnar vikur hafa dýpkunartæki frá fyrirtækinu Hagtaki unnið að hreinsun á botni Hafnarfjarðarhafnar. Um var að ræða klett, sem stóð á annan metra upp úr botninum skammt austan við Þverker. Klettur þessi hefur verið ákveðin hætta fyrir djúprist skip á siglingu inn að Suðurbakka. Dýpkun þessi var lítil á mælikvarða fyrirtækja í þessum geira, en nauðsynleg hreinsun til að tryggja öryggi í innsiglingunni.
Þegar þessu verki lýkur verða dýpkunartæki Hagtaks flutt til Færeyja, þar sem verkefni bíða þeirra. Eftir að tækin eru farin úr landi verða engin sambærileg dýpkunartæki eftir í landinu, svo ef einhversstaðar þarf að dýpka í höfnum landsins þarf að sækja búnað til þess til útlanda.



            5935. Selur og  2255. Svavar í Hafnarfjarðarhöfn á dögunum © mynd af vef Hafnarfjarðarhafnar