17.02.2011 22:00
Goðafoss strandaði við Noreg
Goðafoss, gámaskip Eimskips, strandaði í kvöld við Hvaleyjar í Østfold suður af Ósló í Noregi. Benedikt Elísson, forstöðumaður trygginga- og tjónamála hjá Eimskip, segir að sléttur sjór sé og engin hætta á ferðum. Engin slys hafi orðið á fólki en lítill olíuleki hafi komið að skipinu.
"Við erum bara róleg, það er ekkert neyðarástand. Skipið lenti á rifi og situr þar. Það er sléttur sjór og engin hætta á ferðum. Engin slys á fólki en smávægilegur olíuleki. Við erum bara að vinna að því með áhöfninni að leysa málið ," segir Benedikt.
Hann segir Goðafoss hafi verið á leið til Helsingjaborgar í Svíþjóð frá Fredrikstad í Noregi þegar óhappið varð. Ekki sé gert ráð fyrir að stórtjón hafi orðið miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir.Fjórtán manns eru um borð í Goðafossi en enginn hefur verið fluttur frá borði. Hafnsögumaður var nýfarinn frá borði þegar skipið strandaði.
Á fréttavef Dagbladet í Noregi er haft eftir sjónarvotti, Ragnar Bjørck, sem býr skammt frá strandstaðnum, að hann hafi heyrt hávaða þegar skipið tók niðri. Hann segist ekki sjá neina olíubrák á sjónum en leki olía úr skipinu kunni það að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið í Óslófirði.
Hvaleyjar, eða Hvaler, var sögusvið samnefndra sjónvarpsþátta sem sýndir voru nýlega í Sjónvarpinu.
Goðafoss er 165 metra langt skip og 17.000 tonn að þyngd. Skipið var byggt árið 1995.
