16.02.2011 07:09
Góðar loðnufréttir
Góð loðnuveiði út af Garðskaga
Góður loðnuafli fékkst út af Garðskaga í gær, en þar voru þrjú vinnsluskip í gærkvöldi. Guðjón Jóhannsson, skipstjóri á Hákoni EA, sagði að mönnum væri eðlilega létt að ekki hefði komið til verkfalls, þó svo að það skipti minna máli fyrir vinnsluskipin heldur en þau sem lönduðu aflanum í bræðslu.
"Það vill enginn verkfall, það er svo einfalt, en hins vegar á maður ósköp auðvelt með að skilja að fólk í landi sé ekki sátt við sinn hlut," sagði Guðjón.
Hann sagði loðnuna stóra og fallega fremst í göngunni og mikið virtist vera af henni. "Það er loðna með allri suðurströndinni og austur fyrir land. Það hefur ekki sést svona mikið af loðnu í tíu ár og ef ekki verður leyft að veiða 500 þúsund tonn á þessari vertíð verður það aldrei leyft," sagði Guðjón
