12.02.2011 14:18
Gripdeild stöðvuð í draugaskipi
Síðustu átta mánuði hefur skip, sem merkt er nafninu Helen Guard, legið við hafnarbakkann á Seyðisfirði í farbanni. Skipið var stöðvað í maí í fyrra og þrír skipverjar þess handteknir og yfirheyrðir grunaðir um að tengjast umfangsmiklu fíkniefnamáli í Hollandi. Enginn veit hver á skipið, enginn gerir tilkall til þess og á meðan liggur það nánast óhaffært við höfnina.
Lárus Bjarnason, lögreglustjóri á Seyðisfirði, segir að tollurinn hafi haft reglulegt eftirlit með skipinu síðan það kom enda væri það í farbanni og sé ótollafgreitt. Það eftirlit hefur reynst nauðsynlegt því á dögunum kom upp mál þar sem maður í bænum hugðist hirða ljósavél úr skipinu.
"Við heyrðum af því að eitthvað slíkt væri í uppsiglingu og stoppuðum það bara af þannig að ekkert varð úr því. Þetta var aðili sem ætlaði að nýta sér þessa vél. Hann áttaði sig ekki á því að þetta væri bara ekki heimilt. Svo veit maður ekki hvort einhverju smálegu hafi verið stolið þarna um borð, það getur verið erfitt að koma í veg fyrir það " segir Lárus í samtali við DV.
