11.02.2011 17:53

Jón vill leigja út viðbótarkvóta á hálfvirði

visir.is:

 

Nái tillögur Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um kvótaaukningu og útleigu á þúsundum tonna af þorski, ýsu og fleiri tegundum fram að ganga, kann það að hafa í för mér sér umtalsverða verðlækkun á leigukvóta. Í minnisblaði innan úr stjórnarráðinu, sem DV hefur undir höndum, er gert ráð fyrir að ríkið leigi út viðbótarkvóta í þorski á 163 krónur kílóið, en ýsukílóið á 83 krónur.

Samkvæmt upplýsingum Landssambands íslenskra útvegsmanna er gangverð á þorskkílói um 300 krónur á leigumarkaði og um 215 krónur á ýsu. Leigumarkaðurinn er hins vegar afar slakur og því sem næst botnfrosinn í nokkrum tegundum. Þannig eru verðhugmyndir, sem kynntar eru í minnisblaðinu, aðeins um 50 til 60 prósent af gangverði á leigumarkaði um þessar mundir.
Fjallað er nánar um minnisblaðið í DV í dag. Þar er einnig rætt við Rögnvald Hannesson prófessor í auðlindahagfræði, en hann telur sjálfsagt að ríkið leigi út kvóta og kalli það auðlindagjald.