03.02.2011 17:27
Verkfallið dæmt ólöglegt
Félagsdómur hefur dæmt boðað verkfall starfsmanna í loðnubræðslum ólöglegt. Verkfallið átti að hefjast 7. febrúar. Dómurinn taldi að ekki hefðu verið haldnir formlegir sáttafundir í deilunni áður en verkfallið var boðað.
Verkfallið var boðað af Afli á Austurlandi og Drífanda í Vestmannaeyjum. Það átti að ná til loðnubræðslna á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Verkfallið átti í fyrstu að standa í þrjá daga og verða svo endurtekið 14. febrúar hafi samningar ekki tekist. Og hafi ekki samist 21. febrúar var boðað verkfall í ótilgreindan tíma.
Samtök atvinnulífsins fóru með málið fyrir félagsdóm þar sem samtökin töldu að svokallaður bræðslusamningur væri hluti af aðalkjarasamningi og ekki væri hægt að boða verkfall til að þrýst á um gerð samnings þegar ekki væri búið að ljúka gerð aðalkjarasamnings. Félagsdómur dæmdi hins vegar ekki verkfallið ólöglegt á þessari forsendu heldur að ekki hefðu verið haldnir formlegir sáttafundir áður en verkfallið var boðað.
