11.01.2011 20:00

Bátaskýli í Flugskýli

bb.is:

Bátasafnið fyrirhugar að reisa skemmuna á nýrri uppfyllingu við Reykhólahöfn.
Bátasafnið fyrirhugar að reisa skemmuna á nýrri uppfyllingu við Reykhólahöfn.
Áhugamannafélag um Bátasafn Breiðafjarðar hefur nýverið samið um kaup á gamla flugskýlinu á Patreksfjarðarflugvelli. Flugskýlið er um 550 fermetrar að stærð, með 7,4 metra mænishæð og er burðarvirki úr timbri klætt með stáli. Til stendur að taka skemmuna niður næsta vor og flytja hana til Reykhóla þar sem hún verður reist aftur undir starfsemi safnsins. Á vef Bátasafsins segir að þetta viðbótarhúsnæði setji safnið skrefi nær þeim markmiðum sem það hafi sett sér, bæði í tengslum við bátavernd og betri aðstöðu vegna bátadaga sem haldnir eru árlega. Í vetur hefur verið unnið við nýjan varnargarð við höfnina á Reykhólum og sjá aðstandendur safnsins nýja möguleika fólgna í betri hafnaraðstöðu og hafa þeir augastað á byggingarlóð fyrir nýju skemmuna á fyllingu sem gerð var innan við nýja varnargarðinn. Hafa forsvarsmenn safnsins fundað með oddvita og byggingarfulltrúa Reykhólahrepps um lóðina og segir á vef safsins að vel hafi verið tekið í hugmyndina.

Áætlað er að í öðrum enda hússins verði smíðaverkstæði þar sem hægt verði að taka inn stærri báta til viðgerðar, en stærsti hluti hússins verði nýttur undir sýningarsvæði á bátum. Bátadagar sem eru orðnir árlegur viðburður og fjöldi fólks sækir, fá viðundandi aðstöðu þegar þeir verða fluttir úr Staðarhöfn í nýju aðstöðuna við Reykhólahöfn. Einnig eru uppi hugmyndir um að tengja starfsemina ferðaþjónustu á svæðinu og bjóða upp að siglingar um náttúruparadísina Breiðafjörð á gömlum endurgerðum bátum sem eiga sögu á svæðinu og gefa fólki kost á að kynnast aðeins þessum samgöngumáta sem var lífsnauðsynlegur fyrir ábúendur eyjanna.

Vefur Bátasafnsins Breiðafjarðar á Reykhólum