25.12.2010 22:16

Póseidon EA á sjó um jólin

Úr dv.is:

Rannsóknarskipið Póseidon.                                               Rannsóknarskipið Póseidon.

    Í áhöfn rannsóknarskipsins Póseidon eru 15 Íslendingar. Í gær fékk DV þær upplýsingar frá Landhelgisgæslunni að skipið hafði verið komið til hafnar á Grænlandi yfir hátíðirnar. Haraldur Helgi Hólmfríðarson sá frétt DV og hafði samband við blaðamann og áréttaði að upplýsingar Landhelgisgæslunnar væru ekki með öllu réttar. Póseidon er ennþá úti á rúmsjó og þar fagnaði áhöfnin jólunum. DV vildi grennslast fyrir um hvernig það væri að fagna jólum úti á sjó og hvernig jólahaldið hafi farið fram hjá áhöfnini á Póseidon. Haraldur Helgi lýsti því svona:

    "Það að vera á sjó um jól er svosem ekkert frábrugðið því að vera á sjó á venjulegum degi, menn eru reyndar svolítið innilegri og meiri ró hérna um borð.
    Veðrið hefði mátt vera betra en miðað við árstíma fengum við gott veður. 23-25m/s og 3°c hiti.

    Aðfangadagur byrjaði nú bara eins og aðrir dagar en seinnipartinn fóru menn að týnast í sturtu og hátíðarbragurinn færðist meira yfir okkur hérna.
    Um klukkan 17:00 að Grænlenskum tíma hélt skipstjórinn Ragnar Þór Elísson Olsen messu og þótti hún takast mjög vel.
    Eftir að messu lauk hófst borðhald.

    Í forrétt fengum við humarsúpu, aðalrétt hamborgarhrygg og svo ofnbakaða ávexti í súkkulaðihjúp og ís í eftirrétt.
    Eftir matinn voru svo nokkrar gjafir opnaðar og jólalög sungin. Menn eyddu svo kvöldinu annaðhvort við lestur bóka inni í klefa eða í messanum að horfa á sjónvarpið og hafa það náðugt.

    Samband við umheiminn var ekkert frá því um miðjan dag á Þorláksmessu og þangað til seint í gærkvöldi en við notumst við gervihnattasamband eins og flest önnur skip í flotanum en einhverjir hnökrar voru á tæknibúnaðinum.

    Núna í dag var svo þessi týpíski hádegismatur á jóladag, Purusteik, hangikjöt, uppstúfur og laufabrauð,

    Þess ber þó að geta að vinna féll aldrei niður á meðan þessu stóð og erum við ennþá að.
    Við náum langbylgjuútsendingum RÚV og hlustuðum því á jólakveðjurnar og messu.
    Poseidon kemur til hafnar í Nuuk núna á næstu dögum (fyrir áramót) og verða áhafnarskipti þá.
    Hérna um borð eru 27 manns, 15 íslendingar og 12 útlendingar.