13.12.2010 08:21
Tvö stór flutningaskip í árekstri í morgun undan strönd Danmerkur
Tvö stór flutningaskip rákust saman í morgun um 20 sjómílur vestur af bænum Hritshals við norðurodda Danmerkur. Um er að ræða olíuflutningaskip og gámaflutningaskip.
Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla fossar sjór inn í lestar gámaflutningaskipsins í gegnum stórt gat á síðu þess eftir áreksturinn. Mikill fjöldi björgunarbáta er á leið á slysstaðinn auk þess að þyrla frá dönsku landhelgisgæslunni er komin að skipunum.
Þá hefur sérstakt mengunarvarnaskip einnig verið sent á staðinn en ekki er vitað um neinn leka enn úr olíuflutningaskipinu. Svo virðist sem áreksturinn hafi orðið þegar annað skipanna reyndi að sigla framúr hinu.
