09.12.2010 20:43

Fagna 100 milljóna króna afla





Af bb.is:


Kristján Andri (t.h.) ásamt Inga Magnfreðssyni er áfanganum var fagnað.
Kristján Andri (t.h.) ásamt Inga Magnfreðssyni er áfanganum var fagnað.
Kristján Andri Guðjónsson útgerðarmaður á Ísafirði fagnaði ásamt samstarfsfélögum og vinum þeim áfanga að bátur hans Björg Hauks ÍS hefur aflað fyrir meira 100 milljónir króna á árinu. Björg Hauks er í flokki smábáta undir 10 brúttótonnum og rær alfarið með línu, en þess má geta að Björg Hauks var aflahæsti báturinn í sínum flokki í nóvember þegar hún kom með rúm 56 tonn að landi eftir 16 róðra. "Þetta er í fyrsta sinn sem við náum þessum áfanga og okkur fannst þetta tilvalið tækifæri til þess að gera okkur glaðan dag," segir Kristján sem þakkar háu fiskverði á mörkuðum og góðum gæftum árangurinn. "Og svo er þetta auðvitað ekki hægt nema með fyrsta flokks mannskap bæði í áhöfn og í landi," bætir Kristján við, en skipstjóri á Björgu Hauks er Kristján Guðmundsson.

Kristján segir kvótaleysið vera farið að segja til sín. Sér í lagi sé farið að draga úr ýsukvótanum sem var skorinn mikið niður á þessu fiskveiðiári. "Þó að maður vildi leigja til sín kvóta, þá er hann ekki í boði. Það væri óskandi að sjávarútvegsráðherra myndi auka við kvótann og setja í þetta aukinn kraft. En við bregðumst við þessum meðal annars með því að taka gott jólafrí. Ætli við stoppum ekki þann 17. eða 18. desember og svo förum við ekki af stað fyrr en eftir áramót," segir Kristján Andri.

Þegar líða fer að vori fer Kristján svo að hugsa sér til hreyfings. Hann á annan bát og hefur róðið honum á grásleppu frá Norðurfirði. "Ég og pabbi höfum byggt okkur lítið sumarhús í Norðurfirði og ég hyggst dvelja þar frá lokum apríl og fram á sumar, enda góður staður til að vera á. Vonandi verður svo vertíðin jafn skemmtileg og síðastliðið vor en þá var ljómandi fiskirí og gott verð fékkst fyrir hrognkelsið," segir útgerðarmaðurinn Kristján Andri.