26.11.2010 21:15
Veðurblíða í Landeyjarhöfn
Nú hefur veðurblíðan leikið við þá sem er að vinna að dýpkun Landeyjahafnar. Hefur dýpkunin gengið einstaklega vel í þeirri blíðu sem þar er. Búið er að fjarlægja yfir 30.000 m³ úr hafnamynninu og rennunni fyrir utan það.
Siglingastofnun er að semja við Íslenska gámafélagið um að fá nýtt dýpkunarskip til landsins, Skandia, en það á að geta dýpkað í allt að 2ja metra ölduhæð. Skandia er í slipp í Danmörku þar sem fer fram reglubundin skoðun á botninum og síðan verður skipið málað. Að slipptöku lokinni verður Skandia siglt til landsins. Væntanlega verður skipið komið til Eyja upp úr miðjum desember og byrjar þá að dýpka í Landeyjahöfn.
Þrátt fyrir að Skandia geti unnið í 2ja metra ölduhæð mun Landeyjahöfn lokast oft í vetur, vegna þess ójafnvægis sem er á ströndinni út af gosinu í vor. Í þessu samhengi má ekki gleymast að þegar lagt var af stað í þetta verkefni var ávallt gert ráð fyrir að þegar mjög öflugt hlaup kæmi í Markarfljót myndi sandflutningur aukast og höfnin lokast.
Hins vegar eru jákvæð teikn um að það sé að draga verulega úr sandburði.
