01.11.2010 19:01
Ný lög um lögskráningu sjómanna taka gildi í dag
Í dag taka gildi ný lög um lögskráningu sjómanna. Nýju lögunum fylgja þær breytingar helstar að lögskráning færist til útgerða og skipstjóra og framvegis verður skylt að lögskrá alla í áhöfn á öllum skipum sem notuð eru í atvinnuskyni. Siglingastofnun Íslands heldur utan um nýja kerfið og sér um lögskráningar þeirra sem þess óska.
Í tilefni af breytingunum heimsótti Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Siglingastofnun og tók nýja kerfið formlega í notkun. Leitast var við að hafa skráningarkerfið þægilegt í sniðum og gekk ráðherra greiðlega vel að ljúka fyrstu lögskráningunni.
Helstu breytingarnar eru:
- Lögskráningar og framkvæmd þeirra færist frá lögskráningarstjórum til skipstjóra og útgerða eða til Siglingastofnunar Íslands ef útgerðir kjósa að lögskrá ekki sjálfar.
- Skylt verður að lögskrá alla í áhöfn á öllum skipum sem gerð eru út í atvinnuskyni og eru skráð á íslenska skipaskrá, en skráningarskyld eru öll skip 6 metrar að lengd og lengri. Samkvæmt gildandi lögum er skylt að lögskrá á skip 20 brúttótonn og stærri.
- Óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir.
- Útgerðarmaður og/eða skipstjóri getur lögskráð áhöfn síns skips á grundvelli rafrænna skilríkja eða veflykils ríkisskattstjóra. Þá þarf útgerð að fylla út umsóknareyðublað um aðgang skipstjóra og útgerðar að lögskráningu sjómanna sem nálgast má á heimasíðu Siglingastofnunar. Greiða þarf árlegt gjald kr. 3.000 frá og með árinu 2011 fyrir hvern einstakling sem fær aðgang. Að öðru leyti eru ekki innheimt gjöld vegna lögskráningar.
- Vilji útgerð eða skipstjóri ekki sjá um lögskráninguna sjálf á sitt skip getur hún/hann óskað eftir því að Siglingastofnun annist lögskráninguna. Þá þarf útgerð að fylla út beiðni til Siglingastofnunar Íslands um lögskráningu sjómanna á skip í hvert sinn sem nýskrá á sjómann á skipið, stöðubreyta eða afskrá, en eyðublaðið má nálgast á heimasíðu Siglingastofnunar. Greiða þarf lögskráningargjald með sama hætti og verið hefur, þ.e. kr. 830 fyrir hverja lögskráningu og verður gjaldið innheimt mánaðarlega með greiðsluseðli.
