22.10.2010 16:39
Hólmgrímur segir upp 25 sjómönnum og 30 landmönnum
Segir upp sonum sínum
"Þeir fá bara afskrifað, jafnvel milljarða, og halda áfram," segir Hómgrímur um afskriftir skulda kvótaeigenda. (Mynd Sigtryggur Ari Jóhannsson)
"Þetta er alveg skelfilegt. Ég þarf að segja upp mönnum sem hafa verið hjá mér í 15 og jafnvel 20 ár - þar á meðal eru synir mínir sem hafa verið í 13 og 20 ár. Þetta er hundfúlt," segir Hólmgrímur Sigvaldason, útgerðarmaður í Grindavík.
Hann hefur verið í útgerð í 25 ár en þarf nú líklega að segja öllum upp, bæði á sjó og í landi. Hann hefur þegar sagt upp öllum sínum 25 sjómönnum en á bilinu 50 til 55 manns eru í vinnu hjá honum þegar allt er talið. "Þetta er ekkert grín," segir Hólmgrímur, sem rekur útgerðarfyrirtækin Grímsnes og HSS.
Hólmgrímur segir að ástæðu þess að hann þurfi að segja upp fólki megi rekja til skorts á leigukvóta en fyrirtæki hans hafi undanfarin fjögur ár leigt, veitt og unnið um 11 þúsund tonn af fiski.
Hólmgrímur segir að útgerð sín sé skuldlítil en hátt leiguverð og lítið framboð af leigukvóta sé að sliga hana. Hann segir að á sama tíma og hann neyðist til að leggja upp laupana sé sárt að horfa á bankana afskrifa skuldir kvótaeigenda án þess að það bitni á þeim. "Þeir fá bara afskrifað, jafnvel milljarða, og halda áfram," segir hann og bætir við að honum hafi aldrei gefist tækifæri til að sökkva sér í skuldir. Það þýði hins vegar lítið fyrir sig að ætla að kaupa kvóta fyrir einn eða tvo milljarða. "Það yrði hlegið að mér í bankanum," segir hann.
