14.10.2010 19:30
Ráðherra: Kvóti í þorski, ýsu, ufsa, karfa og síld boðinn til leigu
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra upplýsti á aðalfundi Landssambands smábáteigenda í dag að hann myndi beita sér fyrir því að gefnar yrðu út auknar aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa, karfa og íslenskri sumargotssíld á þessu fiskveiðiári og að kvótarnir yrðu boðnir til leigu gegn sanngjörnu gjaldi, líkt og tíðkaðist nú með skötusel.
Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Þar segir að ráðherrann sagði að viðskipti með aflamark væru í lágmarki og margar útgerðir ættu í erfiðleikum með að fá nauðsynlegar aflaheimildir til þess að stunda blandaðar veiðar. Slíkt ástand yki lýkur á brottkasti.
Auk þess væri nú frekar en nokkru sinni fyrr brýn nauðsyn á að tekjur þjóðarbúsins yrðu auknar á öllum sviðum þegar harður niðurskurður blasti við í grunnþjónustu samfélagsins.
Ekki gat ráðherrann þess hversu mikil kvótaaukningin yrði en frumvarp um þessar breytingar verður lagt fram á Alþingi, að því er segir á vefsíðunni.
