09.10.2010 11:00

Sementsskip í Helguvík

Flutningaskipið Cemvale er nú í Helguvík að losa sement fyrir Aalborg Portland, en skip þetta hefur ásamt nokkrum öðrum skipum verið á reglulegum ferðum milli Aalborgar í Danmörku og Helguvíkur. Undir myndinni ætla ég nú að láta það eftir mér að réttlæta þessa flutninga, en í hvert sinn sem mynd hefur birst um sementskipin hefur Axel E komið inn og haft stór orð gegn þessum flutningum.


                Cemvale, í Helguvík í morgun um kl 9 © mynd Emil Páll, 9. okt. 2010

Flutningar þessir hafa þó nokkuð að segja fyrir Suðurnesjamenn og aðra landsmenn, þar sem sementið er ódýrara en það íslenska, auk þess sem það skaffar nokkur störf á Suðurnesjum og ekki veitir af að halda í þau sem eru fyrir hendi. Axel hefur bent á að við ættum verksmiðju á Akranesi og því ætti að banna þennan innflutning. Þar er ég ekki sammála, enda sem fyrr segir þá veitir okkur ekki af hverju atvinnutækifæri sem í boði er. Þá skulu menn ekki gleyma því að verksmiðjan á Akranesi, hefur hlotið í gegn um árin mikinn ríkisstyrk og við söluna á sínum tíma tók ríkið við miklum skuldum. Slíkt er ekki í myndinni varðandi danska sementið.