08.10.2010 19:50

Erfitt að komast í gegn um ufsalagið

Flesti þeirra sem eiga lítil horn og fengu einhvern kvóta 1. sept. sl. eru búnir með hann. Hinir sem sækja nú út að veiða í soðið eins og það er kallað, notfærðu sér góða veðrið í dag og var ýmist róðið úr Grófinni og inn undir Vogastapa eða jafnvel norður Stakksfjörðinn og veitt í undan Útskálakirkju eða Garðskagavita.
Ræddi ég við einn þeirra sem fór á síðarnefnda staðinn og var einn á með eina handsnúna handfærarúllu og fékk um 80 kíló, sem hann flakaði úti á sjó, áður en komið var í land. Aðal vandræði hans voru þau að svo mikið var að ufsa á miðunum að erfitt var að renna handfæraslóðanum í gegnum ufsalögin til að komast að öðrum tegundum.

Mynd sú sem birtist hér með af litla bátnum Lilla, var tekin á Keflavíkinni, en ekki er klárt hvort hann var að flaka fiskinn sinn þarna, en þó finnst mér það trúlegra en að hann hafi verið að veiða. Sá bátur er ekki sá hinn sami og maðurinn sem ég ræddi við, var á.


                 Lilli, á Keflavíkinni, stutt frá landi í dag © mynd Emil Páll, 8. okt. 2010