29.09.2010 14:53

Hugrenningar

Eins og nokkrum sinnum áður, flyt ég hér smá hugleiðingar um síðuna. Nú tek ég fyrir atriði eins og getraunir, kommentin, myndasöfnin o.fl.

Getraunir

Allar síðurnar hafa birt getraunir um skip og sumar um landslag, en sennilega er þetta fyrsta og eina síðan sem hefur komið með getraun sem var seld til að afla tekna. Einhverjir hafa að vísu misskilið málið, en eins og þeir vita sem eru duglegir að uppfæra síður sínar, þarf mikinn tíma og töluverðan kostnað til að útvega efni í svona miklu magni og ég birti, sem er talið vera milli 5 og 600 færslur á mánuði á öllum síðunum mínum fjórum, já fjórum. Ég er með fjórar síður, þ.e. fyrir utan þessa eru það síða á blogcentral, á fasebookinu og ekki síst sú síða sem verður mín framtíðarsíða epj.is
Til þess að þetta takist hef ég selt nokkrar auglýsingar og ein þeirra er getraunin frá Kaffi Duus. Þar var samið um að hún birtist nokkrum sinnum á meðan skilafresturinn stæði yfir og mun hún birtast enn einu, sinni þ.e. á morgun, sem er síðasti skiladagur. Tilgangurinn  að fá lesendur til að lesa heimasíðu fyrirtækisins. Fleiri fyrirtæki hafa beðið um slíkt, en það á eftir að koma í ljóst hvað verður um framhaldið í þeim efnum.
Það sem hefur bjargað því hvað síðan er fjölbreytt, er hinn mikli og góði hópur ljósmyndara út um allt land sem lánar mér myndir til að birta hér á síðunni. Án þess hóps tækist þetta ekki, nema með enn meiri kostnaði. Ég er mjög þakklátur þessum góða og breiða hópi fólks sem sendir mér myndir og efni og eins þeim sem hringja í mig með ábendingar um hitt og þetta.
Þó svo að getraunin hafi verið greinileg og þátttaka verið mjög góð, voru einhverjir sem misskildu eða lásu hana ekki og voru að kommenta í einkapósti til mín, að enginn vildi svara mér. En það átti enginn að svara mér með kommenti, heldur senda í ákveðið pósthólf, sem aðrir gerðu og er þátttaka langt fram úr vonum.

Kommentin


Í mínum huga hefur það engan tilgang að vera með komment, þegar stærsti hluti þeirra sem þar kemur inn er að benda á eitthvað sem betur má laga varðandi viðkomandi færslu, en lítið er um umræðu. Í framtíðinni verða því engin komment á mínum síðum.
Þá hafa sumir viljað nota kommentin til að fá svör frá mér um hitt eða þetta, eða með öðrum orðum að ég sitji fyrir svörum varðandi ýmislegt er tengist skipum. Í þeim tilfellum og í flest öllum öðrum tilfellum tjái ég mig ekki í kommentum, nú orðið, en vonaðist frekar til að aðrir kæmu inn og gerðu það. En sem fyrr segir hefur ekki orðið af því og því verður þessi þáttur sem kommentin eru fljótlega lagður niður.
En hversvegna kommenta menn ekki? Í raun eru það ekki margar síður sem menn kommenta á, helst síður sem birta frekar fáar myndir og dæla ekki inn eins og ég geri. Ástæðan fyrir því að ég tel að menn kommenti ekki, er að þegar svona mikið magn er og eins svona miklar upplýsingar oft á tíðum er ekkert til að kommenta um. Helst er það að síður, Hafþórs, Markúsar og Tryggva sem fá fjölda kommenta. þó hjá þeim séu stundum birtar margar myndir. Um þessa skoðun mína eru margir aðrir síðuhaldarar sammála mér, allavega þegar ég tala við þá.



Mjög sérstakur

Hversu oft hef ég heirt það að ég sé mjög sérstakur. Já ég er það, ég er ákveðinn og þess vegna er síðan mín ekki eins og hinar, fyrir margra hluta sakir og ef mér tekst að hrynda í framkvæmd áætlunum mínum verður það sem kemur út úr því allt annað en þið sjáið í dag.
Ég hef tekið upp ýmsar nýjungar og fengið formælingu fyrir því á öðrum síðum, en engu að síður taka þessir sömu aðilar það oftast upp. Hver man t.d. ekki eftir þeim skotum að ég væri með of mikið af myndum, en margir þeirra sem skutu fast hafa nú fjölgað myndum hjá sér. Þá skulum við ekki gleyma því að síða með svona mörgum myndum er oftast vinsælli en hinar.
Þegar ég tala um skipasíður, þá er ég ekki með síðu Gísla Reynis í huga, þar sem hún er sérhæfð síða á sviði aflatalna, frekar en skipasíða að mínum dómi, en góð sem slík og auðvitað er hún sjávarútvegssíða, þó svo að hún höfði ekki til mín. Þetta segi ég þó ég eigi allt eins von á skoti til baka annað hvort hér á síðunni eða á síðu hans.
Já ég er sérstakur og þar lifi ég á 30 ára gömlum blaðamennskuferli mínum, ferli þar sem var mun ákveðnari en þekkist í dag og ég hef ekki undan að neita því í samtölum að taka upp þann þráð að nýju, en það er nú annað mál og þessu óskilt.


Myndasafnið

 

Fyrir stuttu læsti ég myndasafninu á síðunni og síðan hefur fjöldi manns óskað eftir að fá leyniorðið til að komast inn. Við því hef ég ekki orðið og er ástæðan þessi.

Myndasafnið er ekkert safn í raun, þar eru engar myndir umfram þær sem birts hafa á síðunni og það er ekki sorterað eftir bátategundum, nöfnum eða númerum, heldur bara eins og passar fyrir mig þegar ég kem með nýjar myndir á síðuna hverju sinni og þá nota ég safnið bara til að fá merkinguna á myndirnar.

Ég sjálfur er með gott safn af öllum myndum sem birst hafa og þær eru mjög aðgengilegar fyrir mig og eru ekki vistaðar hjá 123.is og því ekki opnar fyrir aðra en mig. Ég get því bjargað myndum ef menn þurfa, en þá verður að senda óskir um það sérstaklega, en það er það sama og  ég hef sagt, aðeins, já aðeins, þær myndir sem hafa birtst, en öðrum hendi ég strax.

 

Framtíðin


Já framtíðin er ný síða, með allt öðru sniði og þar verða engin komment leyfð. Þar verður mikil áhersla lögð á sölu auglýsinga, styrkja, getrauna o.fl. sem gefur tekjur. Jafnvel seld umfjöllun (kynningar), eins og ég hef lifað á undanfarin áratug, en á öðru sviði. Þar verður líka teknar upp ýmsar nýjungar.  Meira um það þegar það nálgast, sem ég sé að er alltaf að frestast hjá mér, en verður þó vonandi í vetur.

 

Ekki verður gefinn kostur á að kommenta um þessa grein, þar sem mér er í raun alveg sama um skoðunn annarra á því sem ég hef hér sagt.


                                           Lifið heil
                                                Emil Páll