25.09.2010 13:49
Þá er því lokið í ár
Síðustu langreyðarnar á þessari hvalveiðivertíð komu í Hvalstöðina í Hvalfirði í nótt og í morgun. Fréttavefur RUV greindi frá því í hádeginu að nú sé verið að flensa síðasta hvalinn. Þar með er búið að veiða 148 dýr í ár en kvótinn var 150 langreyðar. Aðeins vantar tvö dýr upp á að fylla kvóta ársins en að auki var heimild til að veiða 25 langreyðar til viðbótar, sem var óveiddur kvóti frá í fyrra. RUV hefur eftir Kristjáni Loftssyni, forstjóri Hvals að ákveðið hafi verið að hætta nú þar sem veðurspá sé slæm og birtutíminn orðinn stuttur. Þess má geta að jafndægur að hausti var í gær og því er dagurinn nú orðinn styttri en myrkrið. Kristján segir vertíðina hafa gengið vel, veður hafi verið gott og hvalurinn hafi legið nærri landi svo túrarnir hafi verið stuttir. Loks segir Kristján að stefnt sé að því að byrja snemma næsta sumar þó erfitt sé að gera áætlanir fram í tímann þegar hvalveiðar séu annars vegar.

