15.09.2010 09:01
Landeyjarhöfn
Perla í Landeyjarhöfn © mynd af vef Siglingastofnunar
Mikið hefur verið skrifað að undanförnu um Landeyjarhöfn og mátti finna þetta á vef Siglingastofunar:
Við eldgosið í Eyjafjallajökli í aprílmánuði var þegar ljóst að það gæti skaðað mannvirki og náttúru á stóru svæði. Einkum fóru Sunnlendingar ekki varhluta af afleiðingum gossins og um margra vikna skeið röskuðust flugsamgöngur í Evrópu vegna öskufalls. Enn erum við að bíta úr nálinni vegna umbrotanna því Markarfljót hefur flutt mikið magn gosefna í sjó fram og óvenjulega þrálátar austlægar öldur hafa borið það fram með hafnarmynni Landeyjahafnar.
Frá upphafi gerðu áætlanir ráð fyrir töluverðri dýpkunarvinnu við hafnargerðina eins og ætíð þarf við slíkar framkvæmdir, einkum í sandhöfnum. Um 220 þúsund rúmmetrar af sandi voru fjarlægðir úr höfn og innsiglingu og gera áætlanir ráð fyrir að árlega þurfi að dýpka um 30 þúsund rúmmetra. Til grundvallar þeim útreikningum lágu rannsóknir á efnisburði við suðurströndina byggðar á gögnum sl. fjögurra áratuga. Á milli ára getur hinsvegar miklu skeikað í sandburði á sjávarströnd og í hressilegum lægðum geta djúpar öldum fært til mikið af efni á stuttum tíma. Þannig má líkja viðhaldsdýpkunum við snjómokstur á vegum, því umfangið fer eftir tíðarfarinu. Á mildum vetrum þarf lítið að moka en meira í vondu árferði.
Gosefni og sandur sem undanfarið hefur safnast í skafl utan við mynni Landeyjahafnar mældist nú fyrir helgina um 20 þúsund rúmmetrar en dæluskipið Perlan hóf dýpkun á föstudag. Verður hún að störfum hvenær sem veður leyfir og suðvestan ölduáttum hjálpa einnig til við að hreinsa innsiglinguna. Gangi ölduspá eftir má búast við að verkið gangi fljótt og vel.
Á fyrsta vetri nýrrar sandhafnar má venjulega búast við aðlögunartíma meðan ströndin nær nýju jafnvægi, en ófyrirsjáanleg gosefni og óvenjulegar ölduáttir lengja þann tíma. Vegna þeirra verður kostnaður vegna viðhaldsdýpkana einnig fyrr á ferðinni en ella, en tjón vegna byrjunarörðugleika í Landeyjahöfn felst samt einkum í töfum sem orðið hafa á siglingum. Er það sameiginlegt markmið allra aðila að þær færist fljótt og vel í eðlilegt horf.
