09.08.2010 20:44
Samkynhneigðasti báturinn í Reykjavíkurhöfn
Þessa frétt og með þessari fyrirsögn mátti lesa í dag á bb.is:
Önfirðingurinn Sævar Jens Hafberg skipstjóri málaði lundaskoðunarbátinn Skúlaskeið í öllum regnbogans litum í tilefni Hinsegin daga. Skúlaskeið er líklega litríkasti báturinn við Reykjavíkurhöfn um þessar mundir að því er fram kemur í Fréttablaðinu. "Ég hef gaman af því að mála og það lá beinast við að skreyta bátinn aðeins fyrir helgina. Þetta tók enga stund og báturinn hefur vakið nokkra athygli meðal manna," segir Sævar Jens í samtali við Fréttablaðið. Skúlaskeið er einn elsti farþegabátur landsins og siglir með ferðamenn út í Akurey og Lundey þar sem hægt er að skoða fjölmenna lundabyggð. Áður var báturinn notaður til að ferja fólk til og frá Viðey og dregur hann nafn sitt af Skúla fógeta í Viðey.
Sævar segist hafa fengið góð viðbrögð frá þeim ferðamönnum sem hafa siglt með honum en segir hina sjómennina við höfnina ekki jafn hrifna af uppátækinu. "Þeir hafa gert svolítið grín að mér, en ég svara þeim bara á móti og segi þá augljóslega ekki nógu örugga með sjálfa sig og þá hætta þeir," segir Sævar hlæjandi og viðurkennir að Skúlaskeið sé samkynhneigðasti báturinn við bryggjuna þessa dagana.
