07.08.2010 19:23

Stormur-Breki ( Hellisey VE 503)




   Stormur-Breki, sem var nærri sokkinn við Þorlákshöfn í dag, átti að nota í bíómynd um Helliseyjarslysið. Um síðustu helgi tók ég þessar myndir af honum í Reykjavíkurhöfn, en þá var búið að mála á hann nafnið Hellisey VE 503.

Kl. 15:40 kallaði báturinn Stormur-Breki, sem er 70 tonna trébátur, og tilkynnti að kominn væri leki að bátnum, sjór í lest, vélarrými og framskipi. Báturinn var þá 8 sjómílur suður af Herdísarvík og stefndi til Þorlákshafnar.  Kallað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita í Grindavík, Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Þyrlan TF-LIF, sem var að koma inn til lendingar í Reykjavík, tók um borð dælu og hélt strax áleiðis á staðinn.

Björgunarskip SL í Grindavík Oddur V Gíslason hélt úr höfn með dælur, slökkviliðsmenn og kafara. Lóðsbáturinn í Þorlákshöfn hélt einnig til móts við bátinn.  TF-LIF var kominn yfir bátinn kl. 16:25. Stýrimaður þyrlunnar seig niður með dælu og hóf þegar að dæla úr bátnum. Kl. 16:52 upplýsti skipstjóri bátsins að vélarrúmið sé orðið þurrt. Haldið var áleiðist til Þorlákshafnar og kl. 17:10 var lóðsbáturinn Ölver kominn á staðinn og fylgdi honum til Þorlákshafnar. Bátarnir komu þangað kl. 18:00.