01.08.2010 13:32

Bára ÍS dregin vélavana að landi

Úr mbl.is

Björgunarsveitin Lífsbjörg fór á björgunarskipinu Björgu frá Rifi til aðstoðar Báru ÍS-200 og dró bátinn í land. Báturinn var á siglingu undan Svörtuloftum þegar drapst á vélinni. Tveimur skipverjum á Báru ÍS tókst ekki að gangsetja vélina og kölluðu eftir aðstoð.

Um tíma var óttast að bátinn ræki hratt að landi, en svo reyndist ekki vera. Hann var um eina og hálfa sjómílu frá landi þegar björgunarbáturinn Björg kom að. Greiðlega gekk að draga Báru ÍS í land og var komið með bátinn í höfn á Rifi upp úr hádeginu.

Björgunarleiðangurinn á Björgu frá Rifi tók um tvo tíma fram og til baka, að sögn Páls Stefánssonar í björgunarsveitinni Lífsbjörgu.