01.08.2010 09:23

Eins og skreytt jólatré

Úr Fiskifréttum:

Makrílveiðar á handfæri. (Mynd: Kristinn Benediktsson)
Makrílveiðar á handfæri. (Mynd: Kristinn Benediktsson)

Makrílbáturinn Blíða KE hefur gert það gott á handfæraveiðum undanfarnar vikur. Fáeinir smábátar hafa stundað þessar veiðar síðustu tvö til þrjú árin en Blíða KE er aflamarksbátur og veiðir með átta handfærarúllum.

Búnaðurinn er ansi tilkomumikill að sjá og hafa menn gjarnan á orði að báturinn líti út eins og skreytt jólatré. Rúllurnar, sem stýra taumunum, bera hátt við himin og hvíla á rennum sem standa út frá skipinu. Fljótt á litið virðist hér um mikið kraðak að ræða en öllu er þó haganlega fyrirkomið.

Fiskifréttir brugðu sér í róður með Blíðu KE um síðustu helgi. Á myndinni hér að ofan er Sigurpáll Hjörvar Árnason vélstjóri að ganga úr skugga um að allt sé í lagi þegar veiðar voru að hefjast á Búðargrunni í Faxaflóa.