29.07.2010 15:17

Júlíus með fullfermi af makríl

Af bb.is:

Vel veiddist af makríl á Júllanum. Mynd fengin af Facebooksíðu skipsins.
Vel veiddist af makríl á Júllanum. Mynd fengin af Facebooksíðu skipsins.

bb.is | 28.07.2010 | 16:48

Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS, flaggskip Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, landaði í dag 228 tonnum af makríl eða fullfermi. Um er að ræða allan makrílkvóta útgerðarinnar og fékkst hann í einni veiðiferð. Að sögn Ómars Ellertssonar, skipstjóra er þetta í fyrsta sinn sem makríl er landað á Ísafirði. Hann segir veiðina hafa gengið vel og segir Júllamenn vel vera til í að veiða aftur makríl fáist kvóti í september er nýtt fiskveiðitímabil hefst. Makríllinn er hausaður og frystur um borð og er reiknað með að farmurinn fari beint til útflutnings. Um er að ræða sjö þúsund kassa af makríl er eftir um tveggja vikna túr.

Undanfarin ár hefur makríll aðallega veiðst sem meðafli á síldveiðunum og lítið hefur veiðst af honum á Vestfjörðum. Undanfarið hafa borist fréttir af makrílgöngum víða í kringum landið og hafa landsmenn verið áhugasamir um þessa fisktegund, sem nú virðist í óvenju miklu magni við landið.

Sjávarútvegsráðuneytið sagði að sérstök ástæða væri til að skapa svigrúm fyrir nýjar veiðiaðferðir, sem líklegar séu til að skapa grundvöll fyrir fjölbreyttri vinnslu á verðmætum afurðum og auka atvinnu í sjávarbyggðum. Ennfremur þætti eðlilegt, vegna þess hve stutt sé síðan farið var að veiða makríl hér í teljandi magni, að veita fleirum aðgang að veiðunum en þeim sem veitt hafa síðustu árin.