24.07.2010 20:58
Veiddi máf með veiðistöng
Veiðisumarið fer ekki vel af stað hjá Steinda Jr.: "Þetta er náttúrulega ekki hægt. Að veiða máv, með veiðistöng. Þetta er bara út í hött," segir grínistinn Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., um frækið afrek sem hann vann á dögunum, en honum tókst fyrir slysni að veiða máv úr háloftunum með veiðistöng.
Steindi hefur smitast af hálfgerðri veiðidellu í sumar, en hefur því miður ekki gerst svo frægur að hysja fisk á land. "Ég er búinn að fara fjórum sinnum í sumar og það eina sem mér hefur tekist að draga á land er flotholt, með áföstum öngli sem var kræktur í eldgamalt fiskhöfuð," segir Steindi.
Hann hefur helst farið í Þingvallavatn að veiða, en það er tiltölulega skammt frá heimkynnum hans í Mosfellsbæ. "Svo var ég búinn að heyra af einhverri alveg mokveiði í Keflavík. Menn á alveg brakandi makríl svo ég skellti mér í smá "roadtrip" með konunni og ákvað að dýfa stönginni aðeins. Það tókst ekki betur en svo að eftir nokkur köst tókst mér að krækja í máv, sem kom gargandi niður úr háloftunum. Ég réð ekkert við hann en þarna komu tveir menn mér til hjálpar, sem betur fer," segir Steindi.
Hann hefur ásamt félögum sínum stofnað klúbb í kringum veiðarnar og heitir hann "Veiðifélagið veiðir ekki skít". "Ég er formaður félagsins, enda eru mörg ár síðan mér tókst að draga eitthvað á land, þetta er ekki hægt," endurtekur Steindi og ítrekar að nóg sé eftir af veiðisumrinu

