21.07.2010 18:00
Hvalur stökk upp á dekk lítillar skútu
Hinn 59 ára gamli Ralph Mothes átti sér einskis ills von þegar hann og kærasta hans sigldu á lítilli skútu skammt fyrir utan strendur Suður-Afríku á dögunum. Það breyttist þegar 40 tonna sunnan sléttbakur stökk skyndilega upp úr hafinu og lenti á skútunni sem stórskemmdist.
Það var annar ferðamaður skammt frá sem náði þessum ótrúlegu myndum sem sýna hvalinn við það að lenda á skútunni og svo afleiðingar höggsins.
Nokkrum sekúndubrotum eftir að fyrri myndin var tekin skall sunnan sléttbakurinn á dekki skútunnar með þeim afleiðingum að mastur hennar mölbrotnaði sem og flest sem varð á vegi hvalsins.
Mothes ásamt kærustu sinni Palomu Werner leituðu sér skjóls ofan í skútinni á meðan hvalurinn strögglaði við að losna úr prísund sinni á dekkinu. Það tókst honum að lokum en eyðileggingin var algjör.
Parið þakkar fyrir að skrokkur skútunnar sé úr stáli því hefði hann verið úr einhverju öðru hefði skútan væntanlega splundrast.
"Þetta var með hreinum ólíkindum og afar skelfileg lífsreynsla," segir Paloma Werner.


