21.07.2010 11:23
Hugleiðingar um smábátaútgerð
STRANDVEIÐIRUGLIÐ - GRÁSLEPPAN - MAKRÍLLINN
Ég hef áður flutt hér hugleiðingar um strandveiðarnar og ætla ekki að ræða um þær sérstaklega, þ.e. að réttlæta þær. Eitt er þó ljóst að útgerðir og sjómenn á togurum og mörgum stærri skipum hafa alltaf verið svona á móti útgerð litlu bátanna og fundið henni allt til foráttu og þá sérstaklega varðandi leyfar til veiða í formi Strandveiða. Þetta er mál sem ég ætla ekki að fjalla um hér.
En við erum þó með lög sem heimila Strandveiðar, ef veiðar er hægt að kalla, því þær eru mjög illa skipt milli landshluta. Tökum sem dæmi að bátar á suður- og vesturlandi komust í raun á sjó í einn dag í þessum mánuði og þá var kvótinn búinn, meðan bátar á norður- og austurlandi geta róið alla daga mánaðarins og klára ekki kvótann.
Þetta hefur þær afleiðingar af bátar á A og D- svæði eru að fara út í veðri sem er alls ekki sjóveður og setja sig og aðra í mikla hættu, til að veiða áður en lokað er fyrir veiðarnar þann mánuðinn. Einnig hefur þetta haft í för með sér þær ráðstafanir að menn á suður- og vesturlandi hafa keypt sér gamla og lélega báta sem þeir staðsetja á norður- og/eða austurlandi og róa þaðan eftir að þeim er bannað að róa úr heimabyggð.
Virðast strandveiðibátar margir hverjir alls ekki ætla að hefja veiðar í ágúst, því þetta er orðið það mikið rugl að það borgar sig ekki að hanga yfir því. En hvað er þá til ráða fyrir smábáta sem ekki hafa kvóta, höfðu Strandveiðileyfi eða voru á grásleppu sem nú er að mestu einnig lokið. Jú menn leita og sumir fara út í makrílveiðar, en þar sem sá búnaðar er mjög dýr, hafa sumir látið freistast að nota bara línu og þá kemur upp annað vandamál, veiðin er oft það góð að línan slitnar undan þunganum, áður en menn ná að koma aflanum um borð í bátinn.
Já þetta er orðið allsherjar rugl og ekki skulum við gleyma því að þeir sem eru á smábátanum eru líka að skapa sér atvinnu, a.m.k. tekjur og því eigum við ekki að ráðast gegn þeim. Sumir hafa þeir fjárfest í nýjum bátum, aðrir hafa lagað eldri báta sem þeir hafa átt og sitja nú uppi með tómar skuldir og vonlausa stöðu.
Munið að þetta eru hugleiðingar mínar, ekki fréttir eða áróður um eitt eða neitt, fremur svona til umhugsunar, þó ég viti að fyrir sumum er það algjör trú að vera á móti smábátum, en þeir ættu bara einfaldlega að berja hausnum í steininn. Því við verðum að horfa á sjávarútveg, sem atvinnugrein þar sem fleiri komast að en LÍU og þeirra félagar. Þau samtök eiga ekki þjóðina og fiskinn í sjónum frekar en aðrir landsmenn og HANA NÚ.
P.s. Þar sem þetta eru hugleiðingar mínar, en ekki endilega skoðun, mun ég ekki svara neinum sem þorir að skrifa hér undir. Hinsvegar fer ég fram á að ef einhver þorir því að láta skítkast eða slæmt innræti vera í skrifunum og alls ekki að koma fram undir einhverjum skammstöfunum eða leyniorðið sem engin veit hver er. Þetta segi ég því ég kem fram undir nafni og krefst þess að aðrir geri það á minni síðu, annars skulu menn sleppa að birta sínar skoðanir, því ég mun fjarlægja þær sem ekki fara eftir reglunum. Menn geta haft aðra skoðun en ég og þá er það auðvitað í góðu lagi, en munið að þetta eru hugleiðingar en ekki skoðun mín og frekar því varpað fram sem slíku.
Með sólarkveðju Emil Páll


Hugleiðingar þessar eru myndskreyttar með myndum sem ég tók í morgun í Grófinni í Keflavík, en það eru frekar táknrænar myndir fyrir smábáta, en að þetta snúist eitthvað frekar um þessa smábáta en aðra © myndir og texti Emil Páll, 21. júli 2010
