14.07.2010 08:42

Meira frá togarastefnumótinu

Í gær birtist fimm mynda syrpa af stefnumóti tveggja togara úti á rúmsjó, þar sem þeir voru að koma skipverja í milli skipa, þar sem hann þurfti að komast fjótt í land og fékk því far með Vigra, sem var á landleið. Ekkert á myndunum sýndi í raun atburðinn þ.e. að flytja mann á milli skipa, hvorki sáust menn né viðkomandi bátur sem notaður var til verksins. Í svona tilfellum er t.d. nóg að sýna hornið á bátnum þegar togaramyndirnar voru teknar, baksvipinn á mönnunum eða þegar farþeginn fór upp í hinn togarann. Þ.e. eitthvað sem sagði að þetta hefði átt sér stað, það lyftir svona myndum sem annars eru hálf dauðar, þ,.e. fimm myndir af tveimur skipum á reki í bongóblíðu úti á hafi. Ekki það að ég sé að gera lítið úr því.

Til að bæta þar úr stal ég í gær mynd af Facebook-síðu ljósmyndarans og vélstjórans á Frera, John Berry þar sem hann sást með togarann í baksýn og birti í gærkvöldi með færslunni. Sú mynd var ekki birt í samráði við hann, en ég vona að hann fyrirgefi mér það.

Nú hefur hann hinsvegar sent mér mynd af hinum skipverjanum sem fór með honum í bátnum til að ferja þann sem fór yfir í Vigra. Sá sem er á þessari mynd heitir Stanislav Tsvetkov og er pólskur, en til að forðast allan misskilning þá var það ekki hann sem fór yfir í Vigra, heldur voru það hann og John sem ferjuðu þann þriðja.

Nöfnin skipta kannski ekki aðalmáli heldur er þetta allt gert til að hafa efnið líflegra.

Nota ég tækifærið til að þakka Johnny eða John Berry eins og hann heitir fullu nafni fyrir myndasendingarnar nú og fyrr.


        Stanislav Tsvetkov og Freri í baksýn © mynd John Berry, 12. júlí 2010