19.06.2010 11:01
Árs seinkun á Þór
Landhelgisgæslan á von á nýju varðskipi, V/S Þór, en það hefur verið í smíðum í skipasmíðastöð í Chile frá því í október 2007. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að skipið yrði afhent fyrri hluta ársins í ár en jarðskjálftinn sem varð í Chile í febrúar setti strik í reikninginn.
Þegar jarðskjálftinn reið yfir voru tveir mánuðir í afhendingu og skipið 96 prósent tilbúið en flóðbylgja sem varð í kjölfar skjálftans komst ofan á skipið og flæddi sjór í vélarrúmið og olli skemmdum á vélinni. Nú liggur fyrir að þetta mun valda allt að tólf mánaða seinkun á framkvæmdinni en Landhelgisgæslan mun ekki bera fjárhagslegan skaða af því. Búist er við afhendingu fyrri hluta árs 2011.
