17.06.2010 09:40
Skipsflak í Akureyrarhöfn
Nú í júníbyrjun voru starfsmenn Siglingarstofnunar að störfum við mælingar í Akureyrarhöfn en við það verk er m.a. notaður fjölgeislamælir. Mælingarnar gáfu til kynna fyrirstöðu sunnan Oddeyrarbryggju og við nánari athugun kom í ljós að um skipsflak var að ræða sem raunar hefur verið vitað um árum saman. Hinsvegar hefur ekki verið mælt niður á það með þessari tækni fyrr.
Í desembermánuði 1996 var fjallað um skipsflakið í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að tveir kafarar á Akureyri hafi þá fundið flak af gamalli skútu sem strandaði í fjörunni við Strandgötu fyrr á síðustu öld og kölluð var barkurinn. Hafi hún legið þar í nokkur ár áður en hún hvarf snögglega í hafið þar sem meðfylgjandi myndir frá mælingum starfsmanna Siglingastofnunar sýna að hún liggur enn. Sömu mælingar segja að lengd hennar sé 59 metrar og að hún liggi á um 25 metra dýpi.
Á vef Sportkafarafélags Íslands eru ítarlegri upplýsingar um þessa skútu. Þar segir að heiti hennar sé "Standard" og hafi verið smíðuð í Bandaríkjunum 1876 en verið móðurskip þýska fyrirtækisins Nordsee í síldveiðum við Ísland sumarið 1905. Þannig hafi fimm gufuskip farið til veiða og landað svo aflanum um borð í Standard þar sem hún lá á Pollinum. Örlög hennar hafi svo verið með þeim hætti sem áður segir. Ennfremur segir á vefnum að skútan sé nú einn skemmtilegasti köfunarstaður sem völ er á en tekið fram að sérstakt leyfi hafnaryfirvalda á Akureyri þurfi til köfunar í hana.
Yfirlitsmynd af Google Earth þar sem staðsetning skútunnar sést.
Mynd byggð á mælingum starfsmanna Siglingastofnunar með fjölgeislamæli.
