16.06.2010 06:35

Lögreglan tekur á móti bátnum

Línu- og handfærabáturinn, Eyjólfur Ólafsson GK-38, sem leitað var að í gærkvöld, fannst kl. 21:45 um 40 sjómílur SV af Reykjanesi eða á svipuðum slóðum og þegar síðast heyrðist til hans um hádegið samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Var nærstaddur bátur fyrstur til að ná sambandi við bátinn en varðstjórar Landhelgisgæslunnar höfðu ítrekað reynt að ná sambandi við hann en það bar ekki árangur.

Var því þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út um kl. 20:30 í gærkvöld auk þess sem varðskipið Týr, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum og nærstaddur bátar voru beðnir um að hefja leit.

Var bátnum vísað til hafnar þar sem hann gerðist brotlegur við fiskveiðilöggjöfina með því að vera fyrir utan langdrægi fjareftirlitsbúnaðar.

Einnig gerðist hann brotlegur við siglingalög og reglugerð um tilkynningaskyldu.

Eyjólfur Ólafsson GK-38 er gerður er út frá Sandgerði en þar mun lögreglan taka á móti bátnum er hann kemur til hafnar nú um kl. 08:00.


   2175. Eyjólfur Ólafsson GK 38, kemur til Sandgerðis © mynd Emil Páll, 24. apríl 2010