11.06.2010 00:00
Hugrenningar um strandveiðarnar

Halldór Guðmundsson á Rafni KE, með góðan þorsk í fanginu
Mikil og neikvæð umræða er víða um land varðandi strandveiðarnar, en síðan eru líka aðrir sem eru yfir sig ánægðir með þessar veiðar. Því birti ég nú hugrenningar sem ég hef sjálfur búið til og einnig birti ég tvær myndir af öðrum af tveimur skipverjunum á Rafni KE 41 sem sagt var frá sl. fimmtudag, en á myndunum lyftir annar þeirra upp stórum og góðum þorski og eins stórum og góðum ufsa.
Andstæðingarnir tala um kommaveiðar, sem er svona slagorð þegar önnur orð um þetta þrjóta, því veiðar þessar eru stundaðar af fleirum en kommum, þó svo að ráðherrann sé úr hópi vinstri-grænna.
Útgerðarmenn stærri skipa eru óðir út í veiðarnar þar sem þær eru teknar af þeim kvóta sem stærri skipin myndu annars fá í sinn hlut. Þetta er ekki ný bóla, því þegar dragnótin hófst löngu fyrir kvótann, voru útgerðarmenn stærri skipa óánægðir með að þeir fengju kvóta á þetta og svo hefur verið með allar nýjar veiðiaðferðir.
Hoppýmenn segja þeir þetta vera gert fyrir og að stór hluti þeirra sem eru á strandveiðum séu lögreglumenn og kennarar sem eru á launum hvort sem er. Varðandi þetta er mér minnisstætt þegar ég starfaði með kennara í áratug, að hann notaði alltaf sumarfríið með því að fara á togara og það þótti engum athugavert á þeim tíma, þannig að ekki er þetta neitt nýtt. Eins hlýtur það að vera öllum hollt að komast annað slagið út í sjó, sérstaklega fólki sem er yfirleitt í innivinnu.
Bátar sem voru uppi á túni eru komnir til veiða og síðan eru björgunarsveitir alltaf að draga þá í land, heyrir maður líka. Þarna eru því miður nokkrir menn að skemma fyrir hinum, með því að róa á bátum sem auðvitað eiga ekki að vera á sjó. En þó skulum við ekki gleyma að oft eru þetta sömu bátarnir aftur og aftur bilaðir eða þurfa aðstoð og í heildina eru kannski 1 - 3 útköll vegna þeirra á dag, en heildarfjöldinn er rúmlega 600 strandveiðibátar á sjó daglega, þannig að þetta er undir 1/2 %, sem eru svona hálfgerðir drullusokkar í þessu. Auðvitað á eitthvert kerfi að stoppa slíka útgerð, en bilanir eru á bátum, þó ekki séu strandveiðar og björgunarsveitir hafa oft á tíðum þurft að sækja bilaða eða olíulausa báta á öðrum tímum en á strandveiðum, en þá eru útköllin færri enda færri bátar á sjó, en núna. Auðvitað nær það engri átt eins og gerðist við Reykjanes í fyrradag að bátur varð olíulaus og annar tók hann í tog en varð fljótlega líka olíulaus og því þurfti að kalla út tvo björgunarbáta til að ná í þá.
Þá fer það í taugarnar á mörgum sem eru á móti þessu að menn hafa verið að yfir fjárfesta í tölvurúllum og öðrum útbúnaði, bara til þess eins að geta veitt sem mest.
En svo við snúum okkur að myndaefninu sem fylgir hugrenningum þessum, þá eru þarna tveir hoppýmenn að störfum. Menn sem róa með tvær rúllur sem eru handrúllur og því ekki rafmagns- eða tölvutengdar. Aflabrögð þeirra eru þó ekki lakari en hinna sem eru með tæknina með sér. Sem dæmi þá komu þessir tveir menn með 400 kg. að landi í gær eftir daginn sem er gott hjá mönnum með handfærarúllur sem ekki eru sjálfvirkar. Á myndunum sjást rafmagsrúllur, en þær eru ekki tengdar og hafa aldrei verið það og því er það handafl þeirra sem dregur fiskinn upp.
Því segi ég að ef menn vita hvað þeir eru að gera og fara vel með bát og afla, þá get ég ekki séð að neitt eigi að banna þeim að taka þátt í veiðum sem þessum. Þá sem eru að skemma fyrir hinum á umsvifalaust að taka úr umferð og eins taka strangt á því ef menn fara ekki vel með hráefnið.

Hér sýnir Halldór okkur ufsa. Myndir þessar eru teknar nokkuð langt frá landi. Athygli skal vakin að þó um sé að ræða dæmigerða rafmagnsrúllu sem þarna sést, virkar hún ekki sem slík og því er það handaflið sem dregur upp fiskinn © myndir Jóhannes Sigvaldason 2010
Skrifað af Emil Páli
