27.05.2010 17:52

Sjómaður hætt kominn við Garðskaga

Eftirfarandi mátti í morgun lesa á vf.is:

Sjómaður á trillu var hætt kominn þegar hann fékk á sig brotsjó við Garðskaga skömmu fyrir hádegi. Björgunarsveitir fengu misvísandi upplýsingar, allt frá því að maðurinn ætlaði að reyna að komast af sjálfsdáðum til Sandgerðis og yfir í það að báturinn væri sokkinn og maðurinn í sjónum.

Rúður brotnuðu í stýrishúsi en sjómaðurinn náði að sigla til Sandgerðis. Á leiðinni í land mætti hann tveimur björgunarskipum, sem bæði voru á leið í útkallið, en með þær upplýsingar að maður væri í sjónum útaf Garðskaga.

Báturinn, Hansa GK 106, hafði haldið út frá Sandgerði í morgun og var á leiðinni til Voga á Vatnsleysuströnd, þar sem taka átti bátinn upp. Við Garðskaga var hins vegar erfitt sjólag og reið brot yfir bátinn með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu og tæki blotnuðu.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta voru bæði flugvél og þyrla Landhelgisgæslunnar sendar á vettvang við Garðskaga en var snúið við þegar ljóst var að sjómaðurinn hafði komist í land í Sandgerði.

Til viðbótar við fréttina á vf.is þá var vindhraði 13 m/s, við Garðskaga kl. 6 í morgun. Hér fyrir neðan birti ég myndir sem ég hef sjálfur tekið af bátnum ýmist fyrir nokkrum dögum og eins í Sandgerði í dag. En myndin hér að ofan er af vf.is


   6120. Hansa GK 106, kemur inn til Keflavíkur fyrir nokkru © mynd Emil Páll, 13. maí 2010




           6120. Hansa GK 106, í Sandgerði í dag © myndir Emil Páll, 27. maí 2010