06.05.2010 07:36

Togari næstum búinn að sigla niður bát

Af vef Landhelgisgæslunnar:

Miðvikudagur 5. maí 2010

Landhelgisgæslunni barst síðastliðna nótt tilkynning frá togara sem staddur er fyrir norðan land, sagðist hann hafa verið nærri því að sigla niður fiskibát á svæðinu. Fyrir árvekni stýrimanns sáu þeir bátinn á síðustu stundu og sveigðu frá honum.  Báturinn var með eðlileg siglingaljós og STK tæki en ekki AIS. Sást hann ekki á radar þar sem hann var ekki búinn radarspegli. Þakkaði varðstjóri fyrir skjót viðbrögð og var í framhaldinu send fyrirspurn til Siglingastofnunar  vegna búnaðar smábáta.

Samkvæmt Siglingastofnun er samkvæmt reglugerð nr. 122/2004, gerð krafa um radar spegil á fiskiskip undir 24 m .   Virðist þó vera misbrestur á að þessu sé framfylgt. 

Litlir trébátar eða trefjaplastbátar framkalla veika og skammvinna svörun á ratsjá sem erfitt getur verið að fylgjast með en mjög mikilvægt er að bátar sjáist í ratsjá. Skip halda fullum siglingarhraða, jafnvel í slæmu skyggni, og of seint getur verið að bregðast við þegar bátur sést með berum augum.