09.04.2010 19:28

Með metafla af grásleppumiðunum

Fékk núna áðan senda þessa athyglisverðu frétt úr Skessuhorni.is frá því í dag:

Eiður Ólafsson skipstjóri á Ísak AK 67 frá Akranesi og háseti hans Kristófer Jónsson komu með hvorki meira né minna en rúm fjögur tonn af grásleppuhrognum, um 35 tunnur, úr vitjun í gær. Vigtarmenn við Akraneshöfn telja þetta Íslandsmet ef ekki heimsmet í aflabrögðum á grásleppuveiði en þeir á Ísak hafa verið einstaklega fengsælir á vertíðinni sem byrjaði 10. mars, stundum verið að fá upp undir þrjú tonn úr vitjun. Eiður segir að þeir séu nú komnir með 18 tonn af blautum hrognum, sem er um 150 tunnur.  Eiður sagði í samtali við Skessuhorn reyndar aldrei heyrt af öðrum eins afla og Ísak kom með í gær og vertíðin í heild sinni hafi gengið vel. Þetta sé gríðarleg búbót núna þegar verð á grásleppuhrognum er í hámarki. "Norðaustan áttin sem hefur verið ríkjandi hefur reynst okkur vel á Faxaflóanum, en núna í sunnan áttinni er ég með megnið af netunum í bátnum.  

Við höfum verið að sækja langt, allt upp í fimm tíma siglingu suður af Snæfellsnesinu," sagði Eiður en nú fer að styttast í vertíðinni hjá honum þar sem að hver bátur má einungis stunda grásleppuveiðarnar í 60 daga.