09.04.2010 15:42

Meira um útrás Ægis

Nýverið var ég með mynd af varðskipinu Ægi í slippnum í Reykjavík og frásögn af leiguverkefni því sem skipið er að fara í. Í dag birtist síðan þessi frásögn á vef Landhelgisgæslunnar um málið.


Varðskipið Ægir hefur að undanförnu verið í slipp við Mýrargötuna en unnið er að því að mála skipið og setja ýmsan búnað um borð sem er nauðsynlegur við fyrirhugað eftirlit varðskipsins í Suður Evrópu og við strendur Senegal.

Unnið er að frágangi samninga um að varðskipið og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF SIF, verði leigð út í sumar, ásamt áhöfnum, í verkefni erlendis á vegum Evrópusambandsins. Meginhlutverk skipsins verður að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins frá maí fram í október en Ísland er aðili að Frontex í gegnum Schengen-samstarfið.

Mun Ægir fylgjast með umferð á hafi úti og skila upplýsingum til stjórnstöðvar sem staðsett verður í landi. Á meðal búnaðar sem settur verður um borð í Ægi er m.a. kæling á aðalvélar og ljósavélar, annóðukerfi í sjókistur, loftkæling í íbúðir, nætursjónaukabúnaður og fleira. Áætlað er að varðskipið fari frá Reykjavík seinnipartin í apríl og komi aftur til Íslands í október.