08.04.2010 09:00

Gamli Þór og olíuskip í hættu

Af dv.is í gær:

Frægt skip í bráðri hættu

Gamla varðskipið Þór lá undir skemmdum í Gufunesi er hann slitnaði upp í norðanhvelli sem gerði í fyrrakvöld og nótt.

Gamla varðskipið Þór lá undir skemmdum í Gufunesi er hann slitnaði upp í norðanhvelli sem gerði í fyrrakvöld og nótt. Mynd Sigtryggur Ari Jóhannsson.

 

Litlu munaði að Thor, áður Þór, sem bundinn hefur verið við bryggju í Gufunesi um langt skeið, ræki upp í grjót er hann slitnaði frá bryggju í norðaustanáhlaupinu aðfaranótt þriðjudags.

Einar Helgi Sigurðsson sá að skipið hafði losnað þegar hann kom til vinnu um morguninn. "Það er yfirleitt ófriður þegar svona blæs hér á þessum slóðum. Mér þótti vænt um að sjá að Faxaflóahafnir létu senda hafnsögubát til þess að koma skipinu til bjargar. Þetta var áður hið sögufræga varðskip Þór, sem háði marga hildi fyrir þjóðina í þorskastríðum fyrri ára. Ég skírði meira að segja eitt barna minna þessu nafni. Ég segi það satt að ef ég ætti pening mundi ég kaupa þetta skip og gera það upp," segir Einar í samtali við DV.

"Gekk á ýmsu"
Gísli Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, segir að ábendingar hafi borist um að skipið hefði losnað og því hafi verið sendur hafnsögubátur í Gufunes til að hjálpa gamla varðskipinu að bryggju aftur.
"Það gekk á ýmsu. Við urðum til dæmis að senda hafnsögubát að olíuskipi sem lá við Örfirisey og urðum að halda aftur af því í norðaustanbálinu í tvær klukkustundir."
Þess má geta að afar harðir vindsveipir gengu fram af Esju í fyrrakvöld og nótt með þeim afleiðingum að bílar köstuðust til og að minnsta kosti ein hestakerra fauk á hliðina