07.04.2010 21:26
Hrafn GK búinn að veiða 1000 tonn af gulllaxi
Þrjú skip Þorbjarnar hf. í Grindavík hafa veitt töluvert af gulllaxi en sá fiskur er utan kvóta. Veiðarnar hafa gengið vel en Hrafn GK 111 er búinn að veiða um 1000 tonn það sem af er fiskveiðiárinu og er það met, aflaverðmætið er um 100 milljónir króna. Hrafn Sveinbjarnason GK 255 hefur veitt um 700 tonn og Gnúpur GK 11 um 400 tonn en hann landar næsta mánudag. Alls hafa því skip Þorbjarnar veitt um 2100 tonn af gulllaxi á fiskveiðiárinu sem er met.
Að sögn Eiríks Ó. Dagbjartssonar útgerðarmanns veiðist gulllaxinn frá suðaustur-miðum vestur um og norður á Vestfjarðarmið. Mest er samt veitt hér á suðvestur-miðum.
Hér má sjá veiðar Þorbjarnaskipa á gulllaxi undanfarin ár:
2100 tonn 2009-2010 þar sem af er fiskveiðiárinu
1350 tonn 2008-2009
1150 tonn 2007-2008
2050 tonn 2006-2007
1575 tonn 2005-2006
1110 tonn 2004-2005
1005 tonn 2003-2004
Þess má geta að Hrafn GK 111 landaði 620 tonnum af blönduðum afla í gær. Verðmæti aflans var 145 milljónir og stóð veiðiferðin í 31 dag.
