08.03.2010 11:53

Gúmmíbátur fannst norður af Sandgerði

Af vefnum 245.is

Rétt fyrir klukkan 10 í gærmorgun var björgunarsveitin Sigurvon kölluð út til leitar að gúmmíbjörgunarbát norður af Sandgerði, sem losnað hafði frá togskipinu Hring SH 153 frá Grundarfirði.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær báturinn losnað, en neyðarsendir úr björgunarbátnum fór að senda frá sér neyðarmerki eftir að báturinn sprakk upp í sjónum. Starfsmenn landhelgisgæslu Íslands hófu strax eftirgrennslan og var björgunarsveitin Sigurvon kölluð út í kjölfarið. Sigurvon sendi stax út tvo tveggja manna hópa til leitar í fjörunni og stóð hún ekki lengi þar sem að annar hópurinn kom fljótt auga á bátinn á eyri fyrir neðan Kirkjubólsvöll.

Eftir stutta leit tók við önnur leit af neyðarsendi úr björgunarbátnum til að slökkva á honum og í framhaldi að koma bátnum úr fjörunni og til Sandgerðis.

Þar sem ekki var hægt að fara á bíl niður í fjöruna þurftu björgunarmenn að draga bátinn á handafli um 100 metra í stórgrýttri fjörunni í átt að golfvellinum.

Þegar þeirri vinnu var lokið tók við vinna við að koma bátnum úr fjörunni. Björgunarsveitin fékk afnot af traktorsgröfu frá Golfklúbbi Sandgerðis til að flytja bátinn úr fjörunni og upp að bíl. Gekk það mjög vel fyrir sig og var báturinn kominn í hús hjá Sigurvon um kl. 15°° í gær.