07.03.2010 11:31
Eldfim umræða: Hvers vegna er gömlu bátunum ekki sökkt á veiðislóð?

Gamlir bátar í Njarðvikurhöfn, sem og víðar og virðast aðallega vera þar til að skapa hafnarstarfsmönnum og öðrum vinnu með að gæta þess að þeir sökkvi þar ekki © mynd Emil Páll 7. mars 2010
Nú ætla ég að taka fyrir mál sem flestir forðast að ræða, en þarf samt að komast í umræðuna. Því á ég allt eins von á að enginn tjái sig hér fyrir neðan af ótta við umræðuna, eða að einhverjir sem eru mér ekki sammála þori að koma fram. Hvað um það ég mun engu svara frekar um málið, hvað sem sagt verður, ef eitthvað verður þá sagt.
Í dag horfum við fram á tvennskonar vandamál, annars vegar það að ekki er lengur að finna nokkur skjól fyrir fiskinn til að hrygna, eða til að alast upp búið er að skarkast með troll eða dragnót á þeim þannig að skjólið er að mestu farið.
Á sama tíma stöndum við uppi með það vandamál að hafnir landsins eru komnar felstar með mikið af ónýtum skipum sem þarf að farga, en ekki má brenna út frá umhverfissjónarmiðum og ekki heldur sökkva af sömu ástæðum.
Því er spurningin afhverju ekki að gefa undanþágu og sameina þetta hvorutveggja. T.d. með því að sökkva gömlum skipum á veiðislóð já eða t.d. í Hafnarleirnum og skapa þar með möguleika fyrir því að skól myndist fyrir fiskana til að fæðast og alast upp. Menn furða sig á að ekki skuli lengur sjást sandsíli, en hvar fær það frið í sandi til að verða fullþroska, hvergi eða alla vega á mjög fáum stöðum.
Í dag er bannað að brenna þessum gömlum bátum sökum mengunarhættu. Það er hinsvegar hægt að fjarlægja þau úr bátum sem sást best er Svanur sökk í Njarðvíkurhöfn, þá kom varla brák á sjóinn. Bátinn mátti hinsvegar ekki brenna, því talið var að mengun yrði er gömul málning myndi brenna.
Málið er að við erum komnir í svo mikil reglugerðaþjóðfélag að ekkert er hægt að gera og því finnst mér nú vera komin þörf á að taka þessi bæði mál og skoða hvort ekki megi samræma þau og gera undanþágu, því fiskurinn þarf staði til að alast upp, það sést á þeim flökum sem hann kemst í skjól í nú þegar. En betur má ef duga skal.
Sameinumst nú og skoðum málið vel ofan í grunninn og hugum að því hvort þarna sé ekki leið til að fara leið beggja, þ.e. umhverfissinna og þeirra sem vilja sjá fiskinn aukast á ný í veiðarlegar stærðir.
Skrifað af Emil Páli
